Frelsi einstaklingsins
Við í Spindrift vinnum að feminískri leiklistarþjálfun þar sem áhersla er lögð á að skapa svigrúm til að skoða hljóðfæri leikarans án þess að metast milli verðugleika ólíkra eiginleika líkama, raddar og tilfinninga. Markmiðið er að skapa feminíska nálgun þar sem minni áhersla er á samkeppni og frekar er athyglinni beint að mismunandi eiginleikum hvers einstaklings. Nálgunin felur í sér að skoða radd- og hreyfieiginleika leikaranna og gefa þeim tækifæri á að njóta þessara ólíku eiginleika og treysta þeim í sköpuninni. Þannig viljum við hverfa burt frá hinu alræmda "dómaraauga" sem fylgir okkur oft í daglegu lífi og njóta fremur alls sem við höfum upp á að bjóða sem ólíkir einstaklingar í sköpunarferlinu.
Við tókum eftir því að í hefðbundnum æfingum er leikarinn oft að þvinga fram orku, er stífur í öllum vöðvum og hrindir félögum sínum frá í von um athygli leikstjórans, kennarans eða áhorfandans. Oft virðist háværum, árasargjörnum og stórum eiginleikum vera veitt meira lof þar sem þeir fanga athygli auðveldlega. Okkur vantaði pláss til að skoða og þróa með okkur t.d. blíðari eiginleika. Við trúum því að allir mismunandi eiginleikar leikarans þurfi að vera skoðaðir, æfðir og leiknir með því persónurnar sem við setjum á svið hafa alla eiginleika mannverunnar.
Við vildum efla valmöguleika og sjálfstraust leikarans með því að skoða líkamann og samneyti hans við umhverfið bæði frá hlutlægu og huglægu sjónarhorni. Við vildum leika með persónusköpun með því að einangra og ýkja mismunandi hliðar leikarans sjálfs. Vonin er að efla hljóðfærið og koma upp með áhugaverða valmöguleika sem koma sannsögulega frá einstaklingnum, og sem frískandi og nýstárlegt val fyrir áhorfendann.
“Mér fannst vinnustofan vera frelsandi lífsreynsla. Aldrei áður hef ég náð að tengjast líkama mínum án fordóma eða efa. ”
“Skipulagið og öryggið sem tók á móti okkur veitti mér tækifæri til að skoða ólíkar hreyfingar sem eina frásagnartækið - sem er alveg nýtt tjáningarform fyrir mig.”
“Vinnustofan hjálpaði mér að finna mörkin og jafnvægið til að vinna hreinskilið og opið með sjálfið, og hjálpaði mér að finna leiðir til að túlka og tjá mig af sjálfstrausti. ”
“Ég naut þess hversu þægilegt og öruggt plássið varð af höndum kennaranna sem veitti mér tækifærið til að treysta sjálfri mér í tilraunum mínum.”
Rannsóknarvinna
Markmið leikhópsins er að halda stöðugt áfram þróun sinni samkvæmt forvitni listamanna Spindrift. Að leika með frumlegar útgáfur og möguleika leikhússins og þýðingu þess fyrir áhorfandann. Við viljum nýta leikhópinn til að þróa okkur áfram sem sjálfstæða listamenn og finna nýjar leiðir til að leika við, með og fyrir áhorfandann. Við erum forvitnar um mannlegt eðli og umhverfið og viljum opna fyrir efasemdir, rökræður, fordómalausa ígrundun, áhættur í hugsun og gjörðum og í raun leyfa okkur að taka stökk í hið óþekkta og ósvaraða. Við viljum gefa möguleika á öðruvísi spurningum út frá öðrum sjónarhornum og taka ekki staðhæfingum sem gefnum.
Vinnustofur veita okkur tækifæri til að svara spurningum og deila æfingum og tækni okkar með listamönnum sem veita innsæi og innblástur fyrir áframhaldandi aðlögun. Auk þess nýtum við vinnustofur til að þróa sýningarhugmyndir og ráða listamenn.
“Ég lærði það að líkamsleikhús snýst ekki bara um flott stökk og flókinn dans.”
“Mér hefur ekki liðið svona þægilega og hamingjusamlega í langan tíma. ”
“Það kom mér á óvart hversu mikið ég treysti og náði að vinna af hreinskilni.”
“Nú get ég nýtt líkamstjáningu mína (eitthvað sem ég átti áður erfitt með) til að tjá persónur orðlaust. ”
Þátttaka
Besta leiðin til að fylgjast með vinnustofum Spindrift er í gegnum Facebook síðu okkar og Twitter.
Nýjasta vinnustofa okkar The Performer and the Self eða Leikarinn og sjálfið býður þátttakendum að rannsaka líkamlega frásagnarlist þar sem innblástur er sóttur í sjálf leikarans. Persónur, leikmunir og sviðsmynd eru þróuð samhliða og veita innsýn í hugarheim persónunnar. Þátttakendur eru hvattir til að leika með margs konar efnivið, arkitektúr, raddbeytingu og líkamlegan spuna til að finna fjölbreyttan innblástur til persónusköpunar og senuvinnu. Vinnustofan hjálpar leikurum að brúa bilið milli sín og persóna og finna möguleika eiginleika sem áður þóttu fjarlægir eða óæskilegir.
Spindrift skapaði vinnustofuna með stuðningi frá Evrópu unga fólksins á árunum 2015 - 2017 og sviðshönnuðurnir Hallveig Kristín Eiríksdóttir og Eva Björg Harðardóttir auk kvikmyndatökumannsins Louis Crevier (Frakklandi) unnu náið með hópnum. Vinnustofan Leikarinn og sjálfið ferðaðist milli Tjarnarbíó (Íslandi), Royal Conservatoire of Scotland (Skotlandi), Gaiety School of Acting (Írlandi) og Norsk Skuespillersenter (Noregi).
Ef þín stofnun hefur áhuga á að hýsa vinnustofur Spindrift fyrir nemendur eða áhugahópa geturðu haft samband við spindrifttheatre@gmail.com.
“Listrænir stjórnendur Spindrift voru sjálfar opnar, ofboðslega gjafmildar, orkuríkar, móttækilegar, stuðningsríkar og skemmtilegar sem gerði þessa reynslu dásamlega.
Mér finnst samsetning hæfileika þeirra, persónuleika og ólíkra tækna, auk einstaklingsbundin nálgun þeirra á efninu koma einstaklega vel saman sem dregur þig til þeirra og drífur þig með þeim hvert sem ævintýrið tekur þig. ”
“Ég fann hliðar á sjálfri mér sem ég vissi ekki að væru til.”
“Ég lærði að það eru ótal mismunandi leiðir til að vinna út frá sjálfum þér og eigin reynslu. Ég naut þess að öðlast slíka tækni og hvernig þú getur valið út frá þessum uppgötvunum til að skapa eitthvað alveg nýtt. ”
“Ég hef nú ríkari meðvitund um allan líkamann minn. ”